Innlent

Vestur­bæingar á­nægðastir með göngu­götur en Grafar­vogs­búar nei­kvæðastir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá göngugötu á Laugaveginum í sumar.
Frá göngugötu á Laugaveginum í sumar. Vísir/vilhelm

Ánægja með göngugötur í miðborginni eykst á milli ára. Fólk sem nýtir sér göngugötur er almennt ánægðara með þær en fólk sem heimsækir þær sjaldnar. Því nær göngugötusvæðum sem fólk er búsett, því jákvæðara er það. Mest ánægja með göngugötur er meðal Vesturbæinga en Grafarvogsbúar eru neikvæðastir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Maskínu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg í september.

67,2% Reykvíkinga eru jákvæðir gagnvart göngugötum í ár miðað við 64,5% árið 2019 og eru því tveir af hverjum þremur borgarbúum með jákvætt viðhorf til göngugatna.

Neikvæðum fækkar úr 20,3% í 16,1%. Um helmingur fólks segir göngugötusvæðið hæfilega stórt en þeim sem finnst svæðið of lítið fjölgar úr 19,3% 2019 í 23,6% í ár. Að sama skapi fækkar þeim um fjögur prósentustig sem finnst svæðið of stórt, í 24,3%.

Þau sem heimsækja göngugötur í miðborginni vikulega eða oftar eru jákvæðust eða 82% og hefur fjölgað í þessum hópi frá fyrra ári. Þau sem heimsækja göngugötur 1-3 sinnum í mánuði eru einnig ánægðari en áður 76% þessa hóps er jákvæður gagnvart göngugötum í ár miðað við 68% í fyrra. Þau sem sækja göngugötur heim sjaldnar en mánaðarlega eru síst jákvæð gagnvart göngugötum eða 42%. Milli ára dregur úr neikvæðni í öllum þremur hópum um fjögur til fimm prósentustig.

Mikill munur er á milli hverfa borgarinnar hvað viðhorfið varðar. Íbúar í miðborginni og hverfanna næst henni eru jákvæðastir gagnvart göngugötum en jákvæðastir eru Vesturbæingar, eða 89%. Þegar kemur að Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og Úlfarsárdal lækkar ánægjan en neikvæðastir eru íbúar Grafarvogs. Þar eru 26% með neikvætt viðhorf til göngugatna.

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu dagana 8. - 17. september 2020. Svarendur voru 884 talsins, 18 ára og eldri úr öllum hverfum Reykjavíkurborgar.


Tengdar fréttir

Að­eins þriðjungur velur bílinn

Nýleg könnun Maskínu um ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu er um margt áhugaverð. Fjöldi þeirra sem aka til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu fækkar úr 71,7% á seinasta ári í 63,3% í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×