Fótbolti

Aron Einar: Þakklátir fyrir að hafa Tólfuna í stúkunni á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verða ekki leyfðar neinar myndatökur með áhorfendum eftir leikinn en einu áhorfendurnir verða 60 meðlmir Tólfunnar.
Það verða ekki leyfðar neinar myndatökur með áhorfendum eftir leikinn en einu áhorfendurnir verða 60 meðlmir Tólfunnar. Getty/Oliver Hardt

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var ánægður með það að sextíu meðlimir Tólfunnar fái að vera í stúkunni á Laugardalsvelli í leiknum mikilvæga á móti Rúmeníu á morgun. Þeir verða einu áhorfendurnir á vellinum vegna harðari reglna í baráttunni við kórónuveiruna.

Aron Einar vonast til að Tólfan dragi liðið aðeins áfram en hann var spurður út í veru hennar í stúkunni annað kvöld.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur og við erum þakklátir fyrir að hafa Tólfuna. Þeir hafa verið okkar helstu stuðningsmenn og gefa allt í þetta uppi í stúku eins og við gerum niðri á velli. Vonandi skilar þetta samspil sigri. Við erum staðráðnir í að ná sigri og lyfta þjóðinni aðeins upp," sagði Aron Einar Gunnarsson.

Aron Einar segir að leikmenn íslenska liðsins þurfa að nýta sér það vel að heyra vel í öðrum og þá er nú gott að tala tungumál sem er ólíklegt að einhver Rúmeninn skilji.

„Það er öðruvísi að hafa ekki áhorfendur. Maður þarf að gíra sig öðruvísi upp. Það góða er að menn heyra vel hver í öðrum, við þurfum að nýta það. En stemningin hefur verið geggjuð hérna síðustu ár. Þetta er okkar heimavöllur og okkar gryfja. Maður sækir innblástur í áhorfendurna þegar þeir styðja við bakið á okkur," sagði Aron Einar en hann sagði líka menn nú hafa vanist því nokkuð að vera ekki með áhorfendur.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 á morgun en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×