Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvatti landsmenn til að standa saman í baráttunni gegn kórónuveirunni í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Hann hvatti jafnframt alla til að fylgja tilmælum og leiðbeiningum og verða þannig að liði í samfélaginu.
„Við erum í vanda. Á morgun [innsk. blm. í dag, miðvikudag] verða varnir gegn veirunni skæðu þess vegna hertar enn frekar. Nýjar reglur gilda um höfuðborgarsvæðið. Kynnum okkur allar upplýsingar á covid.is. Stöndum saman í þessu. Við gerðum það í vor og getum það enn. Einhugur kemur okkur öllum til góða en langmest þeim sem á því þurfa helst að halda, fólkinu sem er veikast fyrir og þeim sem sinna sjúkum. Í stritinu miðju stoðar lítt að velta vöngum yfir því hvað hefði kannski mátt gera öðruvísi, ræðum það síðar,“ sagði forsetinn í færslu sinni í gærkvöldi og hélt áfram:
„Ég hvet alla til að fylgja tilmælum og leiðbeiningum og verða þannig að liði í þessu ágæta samfélagi okkar. Samstaða í þágu þjóðar, þrautseigja í verki. Látum þetta sannast um okkur. Við erum öll almannavarnir. Sýnum hvað í okkur býr.“
Kæru landsmenn. Við erum í vanda. Á morgun verða varnir gegn veirunni skæðu þess vegna hertar enn frekar. Nýjar reglur...
Posted by Forseti Íslands on Tuesday, October 6, 2020