Veður

Vætu­samt fyrir norðan og austan en milt miðað við árs­tíma

Atli Ísleifsson skrifar
Von er á norðlægri átt á föstudag.
Von er á norðlægri átt á föstudag. Vísir/Vilhelm

Fremur vætusamt verður á landinu norðan- og austanverðu í dag og á morgun en lengst af þurrt sunnan- og vestantil. Fremur milt miðað við árstíma, en hitinn verður á bilinu þrjú til átta stig.

Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar, en von er á norðlæg átt á föstudag. Verður þurrt um landið sunnanvert, en úrkoma fyrir norðan, einkum þó austan Tröllaskaga.

„Kólnar fyrir norðan svo að úrkoma gæti orðið á slyddu eða snjókomuformi ofan 300 metra, en flestir fjallvegir liggja ofar en það á norðanverðu landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Norðlæg átt 3-8 m/s og rigning á N-verðu landinu og slydda til fjalla, en bjart með köflum sunnan heiða. Hiti 2 til 7 stig.

Á föstudag: Norðan 3-8 m/s og víða bjartviðri, en norðvestan 10-13 m/s og lítilsháttar rigning eða slyddu NA-lands. Kólnandi veður fyrir norðan í bili.

Á laugardag: Hæg breytileg átt, víða bjart og fremur svalt veður, en vaxandi SA-átt, þykknar upp og hlýnar V-til og rigning þar um kvöldið.

Á sunnudag: Suðlæg og síðar vestlæg átt og rigning í öllum landshlutum. Fremur milt í veðri.

Á mánudag: Vestlæg átt og víða þurrt en fer að rigna V-ast um kvöldið. Hiti 2 til 7 stig.

Á þriðjudag: Útlit fyrir milda suðlæga átt með rigningu, en þurrt A-til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×