Fótbolti

Óttast að Ísland svindli og setji Rúmena í einangrun

Sindri Sverrisson skrifar
Rúmenar þurfa að fara í smitpróf við komuna til Íslands.
Rúmenar þurfa að fara í smitpróf við komuna til Íslands. GETTY/Alex Nicodim og Vísir/Vilhelm

Fulltrúi rúmenska knattspyrnusambandsins óttast að leikmenn Rúmeníu verði ranglega greindir með kórónuveirusmit við komuna til Íslands til að þeir missi af EM-umspilsleiknum.

Ísland og Rúmenía mætast í undanúrslitum umspilsins um sæti á EM á fimmtudagskvöld, á Laugardalsvelli.

Rúmenski hópurinn fer í vinnusóttkví hér á landi, líkt og önnur knattspyrnulið sem hingað hafa komið undanfarið. Það þýðir að leikmenn geta æft saman og svo keppt gegn Íslandi.

Rúmenar ferðast til Íslands í dag og fara í kórónuveirupróf á Keflavíkurflugvelli. Þar óttast Andrei Vochin, ráðgjafi formanns rúmenska knattspyrnusambandsins, að maðkur verði í mysunni, eins og hann talaði um í sjónvarpsviðtali við Telekom Sport í gærkvöld:

Engan veginn sannfærður um heiðarleika Norðurlandabúa

„Íslensk stjórnvöld eru með sínar sérstöku reglur, ólíkt Austurríki [þar sem Rúmenía spilaði síðasta útileik sinn]. Á Íslandi þurfa allir að fara í próf aftur [eftir próf heima í Rúmeníu] sem íslensk stjórnvöld standa fyrir. Rannsóknastofan sem vinnur úr prófunum hefur ekkert með UEFA að gera. Í hreinskilni sagt þá er ég smeykur varðandi þessi próf,“ sagði Vochin.

Alexandru Maxim skoraði laglegt mark þegar Rúmenía vann Austurríki á útivelli í september. Samkvæmt Vochin voru ekki eins strangar sóttvarnareglur í Austurríki eins og á Íslandi.Getty/Alex Nicodim

Vochin sagði umtalað að allir væru svo heiðarlegir á Norðurlöndum en hann væri svo sannarlega ekki sannfærður um það. Benti hann á frægt 2-2 jafntefli Svíþjóðar og Danmerkur á EM 2004, sem varð til þess að bæði lið komust áfram en Ítalía féll úr leik, og ásakanir Svía um kynþáttaníð rúmenskra stuðningsmanna í fyrra. UEFA komst að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn að enginn hefði verið beittur kynþáttaníði.

Sáum hvað gerðist í Færeyjum

Vochin minntist einnig á það þegar sjúkraþjálfari Slovan Bratislava greindist með kórónuveirusmit í Færeyjum, svo KÍ frá Klaksvík var úrskurðað áfram í 2. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.

„Við höfum séð hvernig þetta var í Færeyjum, þar sem reglurnar eru sams konar og á Íslandi. Við sáum hvað gerðist þegar Slovan Bratislava kom þangað, Covid smit greindist og liðinu var úrskurðað 3-0 tap. Þegar þeir komu heim og fóru aftur í próf var maðurinn með jákvæða sýnið með neikvætt sýni.“

Vochin þarf þó ekki að óttast að Rúmeníu verði úrskurðað 3-0 tap greinist einhver í hópnum með smit. Reglur UEFA kveða á um að nái lið ekki að tefla fram 13 leikmönnum, þar af einum markmanni, sé hægt að fresta umspilsleiknum fram í nóvember eða jafnvel fram í júní á næsta ári, rétt áður en EM hefst. Þá er mögulegt að leikurinn verði færður frá Íslandi til að hann geti farið fram, valdi kórónuveiran vandræðum.


Tengdar fréttir

Mætum íslensku fílahjörðinni

Rúmenskir fjölmiðlar fjalla um afar háan meðalaldur væntanlegs byrjunarliðs Íslands fyrir undanúrslitaleik Íslands og Rúmeníu í EM-umspilinu í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×