Fótbolti

Gert ráð fyrir tæplega þúsund stuðningsmönnum á Rúmeníuleiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Tólfan hefur stutt dyggilega við íslenska landsliðið á síðustu árum.
Tólfan hefur stutt dyggilega við íslenska landsliðið á síðustu árum. VÍSIR/DANÍEL

KSÍ gerir ráð fyrir því að geta sett um 900 miða í sölu vegna leiks Íslands og Rúmeníu í undanúrslitum EM-umspilsins í fótbolta karla.

Leikurinn fer fram á fimmtudagskvöld. Síðastliðinn föstudag, þegar enn voru 200 manna samkomutakmarkanir í gildi á Íslandi, gerðu áætlanir KSÍ ráð fyrir því að um 1.500 stuðningsmenn kæmust á leikinn. Nú þegar sóttvarnareglur hafa verið hertar fækkar hins vegar möguleikum íslenskra stuðningsmanna á að komast á leikinn.

Hundrað áhorfendur mega nú vera í einu sóttvarnahólfi á íþróttaleikjum utanhúss. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að gert sé ráð fyrir að hægt sé að mynda fimm sóttvarnahólf í austurstúku Laugardalsvallar, og fjögur í vesturstúku. Hundrað miðar verði seldir í hvert hólf.

Við hina 900 heppnu stuðningsmenn sem hreppa miða bætist svo starfsfólk KSÍ og heiðursgestir, sem einnig geta talist stuðningsmenn, og fjölmiðlamenn. Neðst í vesturstúkunni miðri munu einnig sitja varamenn úr báðum liðum, með bil á milli sín.

Klara segir að verið sé að leggja lokahönd á allar áætlanir og undirbúning fyrir leikinn, en meðal annars þarf að búa til nýja skilmála sem áhorfendur þurfa að samþykkja. Þeir þurfa til að mynda að samþykkja að þeir mæti ekki á leikinn finni þeir fyrir einkennum kórónuveirusmits, og að þeir verði með grímu á leiknum.

Ársmiðahafar fá forgang á miðana 900 sem settir verða í sölu á tix.is síðar í vikunni. Þar gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær“ en fólki verður þó raðað í röð með handahófskenndum hætti ef fleiri en 900 bíða þess að kaupa miða þegar salan hefst.


Tengdar fréttir

Mætum íslensku fílahjörðinni

Rúmenskir fjölmiðlar fjalla um afar háan meðalaldur væntanlegs byrjunarliðs Íslands fyrir undanúrslitaleik Íslands og Rúmeníu í EM-umspilinu í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×