Rúmenska karlalandsliðið í fótbolta verður án fyrirliða síns, Vlad Chiriches, gegn því íslenska í umspili um sæti á EM á fimmtudaginn.
Chiriches meiddist í leik Sassuolo og Crotone í ítölsku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Hann fór af velli eftir rúmlega hálftíma leik. Sassuolo vann leikinn með fjórum mörkum gegn einu.
Sassuolo keypti Chiriches frá Napoli í sumar. Hann lék sem lánsmaður með liðinu á síðasta tímabili. Chiriches kom til Napoli frá Tottenham 2015. Hann lék í eitt tímabil með Gylfa Þór Sigurðssyni hjá Spurs.
Chiriches, sem er þrítugur, hefur leikið 59 landsleiki fyrir Rúmeníu. Hann var leikjahæsti útileikmaðurinn í rúmenska hópnum áður en hann þurfti að draga sig út úr honum.
Rúmenar verða einnig án varnarmannsins Ionuts Nedelcearu gegn Íslendingum. Hann þurfti að draga sig sig úr rúmenska hópnum til að ferðast til Grikklands og ganga frá félagaskiptum til AEK Aþenu. Hann gat því ekki farið í gegnum skyldubundnar smitprófanir til að geta ferðast með til Íslands.