Sport

Áhorfendur leyfðir utandyra: Þurfa að vera með grímu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það verða áhorfendur á leik Íslands og Rúmeníu. Það verður þó ekki jafn þétt setið og á myndinni hér að ofan.
Það verða áhorfendur á leik Íslands og Rúmeníu. Það verður þó ekki jafn þétt setið og á myndinni hér að ofan. Vísir/Vilhelm

Breyting hefur orðið á þeim takmörkunum á samkomuhaldi sem heilbrigðisráðherra hefur sett. Breytingarnar taka gildi 5. október, á miðnætti í kvöld. Áhorfendur verða nú leyfðir á íþróttaviðburðum utandyra.

Upphaflega kom fram í minnisblaði Heilbrigðisráðuneytis að íþróttir með snertingu yrðu leyfðar en aðeins án áhorfenda. Setti þetta til að mynda landsleik Íslands og Rúmeníu sem fram fer nú á fimmtudag, 8. október, í mikið uppnám en samkvæmt reglum UEFA hefðu 1500 manns mátt mæta á þann leik.

Nú hefur verið staðfest að áhorfendur verði leyfðir en aðeins 100 í hverju rými.

„Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu,“ segir í minnisblaði Heilbrigðisráðuneytis.

Hér má sjá minnisblað ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×