Innlent

Óbreytt fyrirkomulag á landamærum til 1. desember

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir kynnti aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fyrir utan Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu í vikunni.
Katrín Jakobsdóttir kynnti aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fyrir utan Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu í vikunni. Vísir/Vilhelm

Núverandi fyrirkomulag landamæraskimunar verður framlengt til 1. dessember. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fréttastofu. Ráðherrar munu funda með sóttvarnayfirvöldum síðdegis.

Í núverandi fyrirkomulagi felst að allir þeir sem koma til landsins þurfa að fara í skimun á landamærum, sæta fjögurra til sex daga sóttkví og fara því næst í seinni skimun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði á dögunum tillögum til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á landamærum. Hann hefur sagt að núverandi fyrirkomulag sé áhrifaríkasta leiðin á meðan tveir stofnar kórónuveirunnar væru í dreifingu hér á landi.

Uppfært klukkan 15:10:

Ríkisstjórnin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að fyrirkomulag skimana á landamærum verði óbreytt til 1. desember, nema að tilefni gefist til endurskoðunar fyrr. 

Fyrirkomulagið verður metið að nýju með hliðsjón af viðmiðum sóttvarnalæknis fyrir 1. desember. Þá verður starf vinnuhóps heilbrigðisráðuneytis um viðurkenningar vottorða frá tilteknum ríkjum hraðað eins og kostur er. Einnig eru til skoðunar ýmsar tillögur um leiðir til að greiða fyrir ferðum um landamæri sem verða metnar af stýrihópi ráðuneytisstjóra og sóttvarnaryfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×