Erlent

Mikil reiði í garð þing­manns sem fór í langa lestar­ferð eftir að hafa greinst með veiruna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Margaret Ferrier, til vinstri, heldur hér á regnhlíf fyrir Nicola Sturgeon, formann Skoska þjóðarflokksins. Sturgeon er afar ósátt með hegðun Ferrier.
Margaret Ferrier, til vinstri, heldur hér á regnhlíf fyrir Nicola Sturgeon, formann Skoska þjóðarflokksins. Sturgeon er afar ósátt með hegðun Ferrier.

Hávær krafa hefur blossað upp um að Margaret Ferrier, þingmaður Skoska þjóðarflokksins, segi af sér eftir að hún viðurkenndi að þverbrotið sóttvarnareglur. Hún ferðaðist með lest frá London til Skotlands skömmu eftir að hún fékk staðfestingu á því að hún væri smituð af kórónuveirunni.

Í frétt Guardian segir að Ferrier hafi viðurkennt að hafa fundið fyrir einkennum vegna Covid-19 síðastliðinn laugardag. Fór hún í skimun en þrátt fyrir það ferðaðist hún með lest frá Skotlandi til London síðastliðinn mánudag, áður en að hún fékk niðurstöðurnar úr skimuninni.

Tilgangur ferðarinnar var að mæta á breska þingið þar sem hún hélt stutta ræða í umræðum um kórónuveirufaraldurinn. Síðastliðið mánudagskvöld bárust henni svo niðurstöður úr skimuninni. Hafði hún greinst jákvæð. Þrátt fyrir þetta ferðaðist hún með lest til Skotlands daginn eftir, vitandi það að hún væri smituð af veirunni.

Um nærri sex klukkutíma ferðalag er að ræða. Samflokksmenn Ferrier eru sagðir vera æfir út í hana en hún gaf flokkssystkinum sínum misvísandi upplýsingar um ferðalögin og veikindin. Samflokksmenn hennar hafa kallað eftir því að hún segi af sér og leiðtogi flokksins, Nicola Sturgeon, sagðist vera afar reið yfir því hvernig Ferrier hafi hagað sér.

Ferrier hefir beðist afsökunar á hegðun sinni en lögregluyfirvöld hafa sagt að líklegt sé að málið verði rannsakað og Ferrier sektuð vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×