Veður

Víða hæg suð­læg eða breyti­leg átt og létt­skýjað

Atli Ísleifsson skrifar
Gróttuviti á Seltjarnarnesi.
Gróttuviti á Seltjarnarnesi. Vísir/Vilhelm

Landsmenn mega margir reikna með hægri, suðlægri eða breytilegri átt þar sem víða verður léttskýjað í dag. Veðurstofan reiknar hins vegar með suðaustan golu eða kalda og stöku skúrir suðvestantil á landinu fram eftir degi.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hitinn verði á bilinu 3 til 8 stig yfir daginn, en í nótt megi allvíða búast við næturfrosti inn til landsins.

„Áfram fremur hægur vindur og bjart veður í fyrramálið, en það verður farið að rigna austast á landinu, auk þess sem líkur eru á dálitlum skúrum við vesturströndina. Síðdegis á morgun og annað kvöld bætir svo í úrkomu, og þá fer að rigna á öllum austurhelmingi landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákortið fyrir hádegið eins og það leit út í morgun.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Bjart með köflum, en dálitlar skúrir við V-ströndina, og fer að rigna um landið A-vert. Hiti 1 til 8 stig.

Á laugardag: Breytileg átt 3-10 og dálitlar skúrir, en léttir til N-lands eftir hádegi. Hiti 3 til 10 stig yfir daginn, hlýjast NA-til.

Á sunnudag: Hæg austlæg eða breytileg átt. Skúrir SV-lands, og dálítil rigning A-til, annars bjart að mestu. Hiti 3 til 8 stig.

Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt og skýjað en úrkomulítið, en léttir til sunnan heiða. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag: Hæg breytileg átt og úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig.

Á miðvikudag: Útlit fyrir norðaustanátt með rigningu eða skúrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×