Efnahagshorfur hafa versnað frá því í júlí vegna þess hvað kórónufaraldurinn hefur dregist á langinn sem mun hafa neikvæð áhrif á heimili að fyrirtæki samkvæmt riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem kom út í dag. Veruleg hætta sé á að fjöldi fyrirtækja fari í gjaldþrot og atvinnuleysi aukist.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans kynnti samnefnt rit sitt um stöðu og horfur í efnahagsmálum á fundi í morgun. Flest bendi til að baráttan við Covid-19 farsóttina verði langdregnari en vonir hafi verið bundnar við með tilheyrandi áhrifum á heimili og fyrirtæki og útlánagæði í fjármálakerfinu. Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka hafi miðað að því að milda höggið af faraldrinum á efnahagslífið. Engu að síður sé viðbúið að atvinnuleysi aukist enn frekar á næstu mánuðum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir algert tekjufall blasa við ferðaþjónustunni með umtalsverðum smitáhrifum á tengdar greinar eins og útleigu atvinnuhúsnæðis.
„Við erum kannski í miðri á. Það sem er erfitt núna er að við vitum ekki nákvæmlega hvenær faraldurinn endar. Það bendir margt til að hann verði aðeins lengur en við höfðum búist við. Það gerir málið aðeins erfiðara,“ segir seðlabankastjóri.
Aðgerðir Seðlabankans með lækkun vaxta og auknu fjármagni í umferð ásamt aðgerðum stjórnvalda hafi náð að styðja við fjármálastöðugleikann. Aukin skuldsetning eins og sér muni hins vegar ekki leysa vanda þeirra fyrirtækja sem verst væru stödd. Veruleg hætta væri á að fjöldi fyrirtækja leiti greiðsluskjóls eða fari í gjaldþrot á næstu mánuðum. Slakað hafi verið á aðhaldi í farsóttinni en fyrirtæki og heimili verði að vera undir það búin að það verði hert á ný þegar efnahagslífið taki við sér.
Ásgeir segir Seðlabankann hafa aukið svigrúm viðskiptabankanna til aðstoðar við atvinulífið og heimilin með ýmsum aðgerðum.
„Það var samið um það við bankana um að það yrði greiðslufrysting sem er núna að fara að renna út. Þannig að nú myndi maður halda að runninn sé upp tími endurskipulagningar. Hvað hún tekur langan tíma veit ég ekki nákvæmlega.“
Það verði farið í það að stokka upp í atvinnulífinu núna, ekki farið í að framlengja frystinguna?
„Ég held að það velti á hverjum banka hvernig hann mun bregðast við því,“ segir Ásgeir Jónsson.