Innlent

Allt að 200 milljónir í endurhæfingu vegna Covid og annarra kvilla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þrjátíu eru á biðlista hjá Reykjalundi eftir endurhæfingu vegna Covid-sýkingar.
Þrjátíu eru á biðlista hjá Reykjalundi eftir endurhæfingu vegna Covid-sýkingar. Vísir/vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja um aukna endurhæfingu, meðal annars fyrir fólk sem glímir við eftirköst í kjölfar veikinda af völdum kórónuveirunnar, en einnig fyrir þá sem eru á biðlista eftir endurhæfingu af öðrum ástæðum. Allt að 200 milljónum króna verður varið til verkefnisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Ýmsir sem greinst hafa með Covid-19 glíma við eftirköst af völdum sýkingarinnar á borð við verki, þreytu, þrekleysi og fleira og hafa sumir orðið óvinnufærir af þessum sökum.

„Talin er hætta á því að eftirköstin geti orðið langvarandi og valdið örorku ef ekkert er að gert. Endurhæfing á réttum tíma í kjölfar veikinda í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklinga getur skipt sköpum í þessu sambandi. Reykjalundur hefur tekið við fólki úr þessum hópi og 30 manns eru á biðlista hjá stofnuninni í þörf fyrir endurhæfingu eftir COVID-19 veikindi,“ segir í tilkynningu.

Þá bíði fjöldi fólks eftir endurhæfingu af ýmsum ástæðum. Biðtími eftir endurhæfingu á Reykjalundi er frá fjórum vikum og allt að einu ári. Brýnt sé að bregðast við þessari miklu þörf fyrir endurhæfingu með því að auka framboð þjónustunnar. Þar muni m.a. nýtast vel tillögur að endurhæfingarstefnu sem nú liggja fyrir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×