Innlent

Bak­varða­sveitin endur­vakin í ljósi þróunar far­aldursins

Atli Ísleifsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisyfirvöld hafa óskað eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Er þar leitað að fólki sem sé reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Í tilkynningu segir að bakvarðasveitin hafi verið sett á fót í upphafi faraldursins í vor þegar ljóst væri að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar.

„Þetta fyrirkomulag gaf góða raun og gerði heilbrigðisstofnunum kleift að manna í stöður með hraði þegar á þurfti að halda. Í ljósi þess hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu daga er bakvarðasveitin nú endurvakin og er hér með óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir,“ segir í tilkynningunni.

Nánar má lesa um bakvarðasveitina á vef heilbrigðisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×