Íslenski boltinn

Íslandsmeistarar fyrir þremur árum en eiga nú á hættu að falla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór/KA hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum í Pepsi Max-deild kvenna. Markatalan er 4-23.
Þór/KA hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum í Pepsi Max-deild kvenna. Markatalan er 4-23. vísir/vilhelm

Árið 2017 varð Þór/KA Íslandsmeistari kvenna í annað sinn. Nú þremur árum seinna er liðið í fallsæti Pepsi Max-deildar kvenna eftir sjö leiki í röð án sigurs.

Vísir fékk Báru Kristbjörgu Rúnarsdóttur, sérfræðing í Pepsi Max mörkum kvenna, til að fara yfir stöðuna á Þór/KA og af hverju liðið á núna á hættu að falla.

„Ég átti ekki beint von á þessu en ég er heldur ekki í sjokki. Miðað við hrókeringarnar á liðinu fannst mér þær vera spurningarmerki fyrir tímabilið,“ sagði Bára.

Fylgdu ekki eftir frábærri byrjun

Sumarið gat reyndar ekki byrjað betur fyrir Þór/KA sem vann fyrstu tvo leiki sína í Pepsi Max-deild kvenna og skoraði í þeim átta mörk. Síðan þá hefur liðið aðeins unnið einn leik og skorað níu mörk. Á sunnudaginn tapaði Þór/KA fyrir Breiðabliki, 0-7, á heimavelli. Þór/KA tapaði fyrri leiknum gegn Breiðabliki með sömu markatölu.

„Þær fóru betur af stað en ég bjóst við og því kemur það mér meira á óvart að þær séu í þessari stöðu. En fyrir tímabilið var þetta alveg möguleiki. Ég spáði þeim 6.-7. sæti,“ sagði Bára.

Hulda Ósk Jónsdóttir er einn af lykilmönnum Þórs/KA.vísir/sigurbjörn andri óskarsson

Undanfarin ár hefur Þór/KA misst sterkara leikmenn og í leikmannahópi liðsins nú eru aðeins þrjár, Margrét Árnadóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir, sem voru fastamenn í Íslandsmeistaraliðinu 2017. 

Fyrir þetta tímabil missti Þór/KA svo risastóran spón úr sínum aski þegar mexíkósku landsliðskonurnar Sandra Mayor og Bianca Sierra hurfu á braut sem og Andrea Mist Pálsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir.

Ekki alltaf samkvæmur sjálfum sér

Þá hætti Halldór Jón Sigurðsson þjálfun liðsins og við tók Andri Hjörvar Albertsson. Bára setur spurningarmerki við nokkrar ákvarðanir hans í sumar. 

„Það eru margir þættir sem spila inn í. Mér finnst stundum rosalega skrítið hvernig hann „róterar“ liðinu og stillir upp. Í sumum leikjum hefur hann hvílt lykilmenn sem mér finnst alltaf eiga að spila. Það er mikið rót á liðinu. Mér finnst hann ekki alltaf samkvæmur sjálfum sér,“ sagði Bára.

Andri Hjörvar Albertsson tók við Þór/KA fyrir þetta tímabil.vísir/vilhelm

Undanfarin ár hefur Þór/KA verið mjög sterkan 2. flokk og ungir leikmenn hafa fengið tækifæri með venslaliðinu Hömrunum. Þór/KA hefði því átt að vera vel í stakk búið til að takast á við kynslóðaskipti og umbreytingar á liðinu.

„Því þær hafa haldið Hömrunum úti og verið með gríðarlega sterkan 2. flokk hefði ég haldið að það væri hægt að byggja þetta upp og þetta hefði verið tímabilið til þess. Þess vegna skil ég ekki þetta rót á liðinu,“ sagði Bára.

Verða að finna sitt lið

Þór/KA er í níunda og næstneðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar með tólf stig, jafn mörg og Þróttur, sem er í 8. sætinu, en lakari markatölu. Öll liðin í neðri helmingi deildarinnar eiga fjóra leiki eftir nema botnlið KR sem á sjö leiki eftir. KR-ingar eru með tíu stig.

„Mér finnst þær vera komnar í þannig stöðu að þær eiga möguleika á að falla. Ég held að lykilinn hjá þeim sé að finna sitt lið og spila sig betur saman. Mér finnst hafa verið alltof mikið rót á liðinu og ef það heldur áfram verða úrslitin áfram upp og niður og happa og glappa,“ sagði Bára.

Arna Sif Ásgrímsdóttir er reyndasti leikmaður Þórs/KA og fyrirliði liðsins.vísir/vilhelm

„Svo finnst mér alltof mikið mæða á Örnu Sif [Ásgrímsdóttur, fyrirliða Þórs/KA]. Ef þær vantar mark er henni hent fram og ef þær þurfa að halda er hún í vörn. Það snýst allt um það að koma henni í hlutverk í stað þess að liðið stígi upp.“

Í síðustu fjórum leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni mætir Þór/KA FH á útivelli, Selfossi á heimavelli, KR á útivelli og Þrótti á heimavelli í lokaumferðinni. Þrír af fjórum síðustu leikjum Þórs/KA á tímabilinu eru því gegn liðum sem eru með þeim í fallbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×