Erlent

Naval­ní sagður geta talað á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Alexei Navalní dvelur nú á sjúkrahúsi í Berlín í Þýskalandi.
Alexei Navalní dvelur nú á sjúkrahúsi í Berlín í Þýskalandi. Getty

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní eru sagður geta talað á ný og getur mögulega munað eftir smáatriðum úr flugferðinni örlagaríku þar sem eitrað var fyrir honum.

Þýska blaðið Spiegel hefur þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Greint var frá því á mánudaginn að Navalní hafi vaknað eftir að hafa verið í dái síðan 20. ágúst síðastliðinn.

Spiegel segir að þýska lögreglan hafi eflt gæsluna á sjúkrahúsinu í Berlín þar sem Navalní hefur dvalið síðustu vikurnar. Er óttast að önnur tilraun verði gerð til að ráða Navalní af dögum.

Navalní veiktist skyndilega um borð í flugvél sem var á leið frá Síberíu til Moskvu, en fljótlega kviknaði grunur um að eitrað hefði verið fyrir honum. Sá grunur var síðar staðfestur í Þýskalandi og telja yfirvöld þar hafið yfir allan vafa að honum hafi verið byrlað taugaeitrið Novichok.

Flugvélinni var nauðlent í Omsk eftir að Navalní veiktist og naut hann til að byrja með aðhlynningar á sjúkrahúsi þar, en var svo fluttur til Berlínar.

Rússnesk stjórnvöld hafa hafnað ásökunum um að hafa eitrað fyrir Navalní og krafist frekari upplýsinga um rannsóknir sem hafa verið gerðar á honum í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×