Erlent

Þungamiðja faraldursins að færast til Indlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðamenn á Indlandi segja umfangsmikla skimun útskýra mikla fjölgun smitaðra þar í landi. Tiltölulega lág dánartíðni virðist styðja það.
Ráðamenn á Indlandi segja umfangsmikla skimun útskýra mikla fjölgun smitaðra þar í landi. Tiltölulega lág dánartíðni virðist styðja það. EPA/JAGADEESH NV

Minnst 900 hundruð þúsund manns hafa nú dáið vegna Covid-19, svo vitað sé. Tæplega 28 milljónir hafa smitast. Síðustu tvær vikur hafa að meðaltali um 5.600 manns dáið á degi hverjum á heimsvísu.

Smituðum fer hratt fjölgandi á Indlandi. Þar greindust 97.399 nýsmitaðir á milli daga og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Svo virðist sem þungamiðja heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar sé að færast til Indlands, næst fjölmennasta ríkis heims.

Í heildina hafa 4,4 milljónir greinst smitaðir á Indlandi og tæplega 74 þúsund hafa dáið.

Vitað er að 6,4 milljónir hafa smitast í Bandaríkjunum og rúmlega 190 þúsund hafa dáið. Í Brasilíu hafa 4,2 milljónir smitast og 127 þúsund dáið.

Þrátt fyrir mikla fjölgun smitaðra á Indlandi er verið að draga úr ferðatakmörkunum og voru barir til að mynda opnaðir í dag. Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst smitaðir á dag og rúmlega þúsund manns hafa dáið á hverjum degi í tvær vikur, samkvæmt samantekt Reuters.

Dánarhlutfallið á Indlandi virðist vera um eitt prósent en í Bandaríkjunum og Brasilíu virðist það um þrjú prósent, sem er í takt við meðaltalið. Ráðamenn á Indlandi segja mikla fjölgun smitaðra þar í landi vera til marks um verulega umfangsmikla skimun fyrir kórónuveirunni.


Tengdar fréttir

Frakkar þurfa að taka erfiðar ákvarðanir

Yfirvöld í Frakklandi tilkynntu í dag að 8.577 hefðu greinst smitaðir af Covid-19 á milli daga. Það er næst mesti fjöldinn sem greinst hefur frá því heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar hófst en vísindaráð landsins hefur ráðlagt ríkisstjórn Emmanuel Macron að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða og taka erfiðar og mögulega óvinsælar ákvarðanir sem fyrst.

Draga úr skimun til að fegra ímynd forsetans

Hvíta húsið er hætt að reyna að halda aftur af útbreiðslu Covid-19 í Bandaríkjunum. Þess í stað er markmiðið að vernda viðkvæma hópa, koma á einhvers konar eðlilegu ástandi og bæta ímynd Donald Trump, forseta varðandi faraldurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×