Minnst 900 hundruð þúsund manns hafa nú dáið vegna Covid-19, svo vitað sé. Tæplega 28 milljónir hafa smitast. Síðustu tvær vikur hafa að meðaltali um 5.600 manns dáið á degi hverjum á heimsvísu.
Smituðum fer hratt fjölgandi á Indlandi. Þar greindust 97.399 nýsmitaðir á milli daga og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Svo virðist sem þungamiðja heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar sé að færast til Indlands, næst fjölmennasta ríkis heims.
Í heildina hafa 4,4 milljónir greinst smitaðir á Indlandi og tæplega 74 þúsund hafa dáið.
Vitað er að 6,4 milljónir hafa smitast í Bandaríkjunum og rúmlega 190 þúsund hafa dáið. Í Brasilíu hafa 4,2 milljónir smitast og 127 þúsund dáið.
Þrátt fyrir mikla fjölgun smitaðra á Indlandi er verið að draga úr ferðatakmörkunum og voru barir til að mynda opnaðir í dag. Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst smitaðir á dag og rúmlega þúsund manns hafa dáið á hverjum degi í tvær vikur, samkvæmt samantekt Reuters.
Dánarhlutfallið á Indlandi virðist vera um eitt prósent en í Bandaríkjunum og Brasilíu virðist það um þrjú prósent, sem er í takt við meðaltalið. Ráðamenn á Indlandi segja mikla fjölgun smitaðra þar í landi vera til marks um verulega umfangsmikla skimun fyrir kórónuveirunni.