Innlent

Hálf­sorg­legt að skapa meting með saman­burði á Co­vid-19 við aðra sjúk­dóma

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að sér finnist hálfsorglegt að einhverjir reyni að skapa meting á milli sjúkdóma með því að bera saman afleiðingar Covid-19 við aðra sjúkdóma.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag þar sem hann ræddi sérstaklega um hversu varhugavert það væri að bera saman dánarhlutföll mismunandi sjúkdóma við Covid-19.

„Mér finnst líka hálfsorglegt að sjá að menn eru kannski að bera saman afleiðingar þessa sjúkdóms saman við aðra sjúkdóma og skapa þannig hálfgerðan meting á milli sjúkdóma,“ sagði Þórólfur sem benti á slíkur samanburður væri ekki sanngjarn, þar sem allt væri gert innan skynsamlegra marka til þess að lágmarka áhættu sem fylgir sýkingum og öðrum sjúkdómum.

„Menn voru að tala um hversu margir deyja hér á Íslandi ári af völdum lungnabólgu með inflúensu. Það er fjöldi. Það deyr alltaf einhver úr einhverju. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að þetta verði útbreidd þannig að dánartalan verði mjög há,“ sagði Þórólfur um Covid-19.

Markmið stjórnvalda með hörðum aðgerðum væri að stoppa útbreiðsluna til þess að byrja með, til þess að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar þess að margir sýkist af veirunni í einu með tilheyrandi dánartíðni og álagi á heilbrigðiskerfið.

„Ef að þetta er orðið útbreitt, þá fáum við þessar afleiðingar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×