Innlent

Demantshringurinn formlega opnaður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá opnuninni í gær.
Frá opnuninni í gær. Mynd/Markaðstofa Norðurlands

Demantshringurinn var formlega opnaður við hátíðlega athöfn í gær, þegar þrír ráðherrar klipptu á borða sem var strengdur yfir nýjan Dettifossveg mitt á milli Dettifoss og Ásbyrgis.

Um er að ræða 250 kílómetra ferðamannaleið sem tengir saman Húsavík, Goðafoss, Mývatnssveit, Dettifoss og Ásbyrgi auk fjölda annarra áfangastaða.

Demantshringurinn hefur verið notað um þessa leið um árabil en undanfarin misseri hefur verið unnið að því að markaðssetja leiðina fyrir erlenda ferðamenn.

Ein af forsendunum fyrir því eru framkvæmdir við Dettifossveg en stefnt er að því að ljúka þar framkvæmdum á næstunni. Því verður hægt að keyra alla leiðin á bundnu slitlagi, en heimamenn hafa lengi kallað eftir því að vegurinn á milli Dettifoss og Ásbyrgis yrði byggður upp.

„Demantshringurinn gerir okkur kleift að heimsækja fjöldamargar náttúruperlur á einum degi og mun opna norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum. Það var stórkostlegt að heimsækja Dettifoss í dag en þessi samgöngubót mun verða til þess að fleiri munu heimsækja hann og aðra stórkostlega staði i þessum landshluta,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands, en Katrín var ein af þeim sem opnaði leiðina formlega.


Tengdar fréttir

Segir Þeistareykjaveginn verða þann langflottasta

Verktakinn sem er að leggja nýjan Þeistareykjaveg spáir því að hann verði vinsælasta ferðamannaleiðin milli Húsavíkur og Mývatns og telur að hann ætti að verða hluti af Demantshringnum, sem Norðlendingar eru að markaðssetja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×