Erlent

Blake segist stöðugt verkjaður

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jacob Blake segist stöðugt verkjaður í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í dag. Hann liggur enn á sjúkrahúsi og segir fjölskylda hans hann vera lamaðan fyrir neðan mitti.
Jacob Blake segist stöðugt verkjaður í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í dag. Hann liggur enn á sjúkrahúsi og segir fjölskylda hans hann vera lamaðan fyrir neðan mitti. Twitter/skjáskot

Jacob Blake, maður sem skotinn var sjö sinnum í bakið af lögreglumönnum í borginni Kenosha í Wisconsin í Bandaríkjunum í síðasta mánuði, segist vera stöðugt verkjaður í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í dag.

Fjölskylda Blake segir hann lamaðan fyrir neðan mitti en hann segir einnig í myndbandinu að þrátt fyrir erfiðar aðstæður eigi hann enn eftir að lifa löngu lífi. Blake er 29 ára gamall þriggja barna faðir en hann var skotinn í bakið við handtöku.

Í kjölfar atviksins hófust mikil mótmæli í Bandaríkjunum að nýju vegna kynþáttamismununar og lögregluofbeldis en mótmælaalda vegna þessa hefur riðið yfir Bandaríkin eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumönnum.

„Það er vont að anda“

Mótmælin í Kenosha, borginni sem Blake var skotinn í, urðu ofbeldisfull og létust tveir í mótmælunum.

Rannsókn á máli Blake stendur enn yfir en Blake hefur þegar mætt fyrir dóm og lýst yfir sakleysi sínu vegna ákæru sem var færð til bókar áður en hann var skotinn.

Í myndbandinu sem birt var á Twitter-síðu lögmanns Blake, sem enn liggur á spítala, talar hann um hve illa haldinn hann sé. „Alla klukkutíma sólarhringsins finn ég fyrir sársauka. Það er vont að anda, það er vont að sofa, mig verkjar þegar ég hreyfi mig og það er vont að borða,“ segir hann.

„Líf þitt, og ekki bara líf þitt, fæturnir þínir, sem þú þarft til að geta hreyft þig og haldið áfram lífinu, geta verið hrifsaðir af þér svona,“ segir hann og smellir fingrum.


Tengdar fréttir

Trump hunsaði orsakir ófriðarins í heimsókn til Kenosha

Donald Trump Bandaríkjaforseti minntist ekkert á atvikið þegar lögreglumaður skaut svartan mann sem var kveikjan að ófriði sem hefur ríkt í Kenosha í Wisconsin undanfarna daga þegar hann heimsótti borgina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×