Sundlauginni í Laugaskarði í Hveragerði verður lokað fyrsta dag októbermánaðar og mun ekki opna á ný fyrr en í apríl á næsta ári. Til stendur að gera upp búningsklefa laugarinnar í vetur og segir bæjarstjórinn að Hvergerðingar muni því líklega þurfa að leita annað í vetur til að komast í sund.
Sunnlenska sagði frá því í dag að til standi að loka lauginni vegna framkvæmda.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri segir í samtali við Vísi að til standi að ráðast í algerar endurbætur á búningsklefum laugarinnar.
„Við erum búin taka í gegn efri hæðina og nú er komið að búningsklefunum. Þetta er náttúrulega fimmtíu ára gamalt hús og löngu, löngu tímabært að fara í endurbætur á því,“ segir Aldís og bætir við að áætlaður framkvæmdatími sé til 1. apríl á næsta ári.
Þurfa að þreyja þorrann
Aldís segir bæjarbúa vita að nauðsynlegt sé að ráðast í framkvæmdirnar. „Það er ekki hægt annað. Og þegar á að taka í gegn búningsklefa í sundlaug þá þarf að loka. Því miður. En ég held að það hlakki öllum til að sjá endurbæturnar.“
Aðspurð um hvað sundþyrstir Hvergerðingar skuli gera á meðan á framkvæmdum standi segir Aldís að þeir verði bara að þreyja þorrann.
„Sundlaugin var náttúrulega lokuð í einhverjar vikur út af Kófinu svo fólk er kannski vant þessu. Þetta er náttúrulega ekki gott. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að fólk gæti farið í sund á Heilsustofnuninni, en hún er auðvitað lokuð út af Kófinu. Svo er þriðja laugin í bænum, á Hótel Örk, en hún er ekki opin almenningi. Fólk verður því bara að skutlast á Selfoss eða Þorlákshöfn og láta sig dreyma um betri tíð og blóm í haga þegar þetta er búið.“
Sundlaugin í Laugaskarði í Hveragerði var opnuð árið 1938, en húsið byggt 1963 eftir teikningu Gísla Halldórssonar arkitekts.