Erlent

For­setinn hvetur ríkis­stjórnina til að fara frá

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi mótmæla fyrir framan þinghúsið í Sófíu í gærkvöldi.
Frá vettvangi mótmæla fyrir framan þinghúsið í Sófíu í gærkvöldi. Getty

Forseti Búlgaríu, Rumen Radev, hefur biðlað til ríkisstjórnar landsins að segja af sér eftir mótmælaöldu síðustu daga. Alls þurftu 45 manns að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir að til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu.

Mótmælin hafa beinst gegn ríkisstjórninni og ríkissaksóknara landsins sem sökuð er um að líta framhjá spillingu og hafa leyft ólígörkum að ná tökum á stjórn landsins. Bojko Borisov forsætisráðherra og Ivan Geshev ríkissaksóknari hafa hafnað ásökununum.

Þúsundir söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Sofíu í gær og er talið að um fjölmennustu mótmælin hafi verið að ræða frá því að þau hófust fyrir um tveimur mánuðum.

Steinum, flugeldum, eggjum og öðru lauslegu var kastað að þinghúsinu, en lögregla beitti meðal annars piparúða á móti. Er áætlað að um sextíu manns hafi verið handteknir.

Rumen Radev Búlgaríuforseti.Getty

Radev forseti er pólitískur andstæðingur forsætisráðherrans Borisov, en forsætisráðherrann hefur sjálfur sagst munu fara frá, samþykki þingið kröfur hans um nýja stjórnarskrá.

Radev gefur lítið fyrir málflutning Borisovs og segir að það sé ekki vöntun á nýrri stjórnarskrá sem hafi leitt til þess að þúsundir fari nú út á götur til að mótmæla. Þess í stað sé það spillingin, siðferðisbrestur stjórnarinnar og veiking ríkisvalds.

Í drögum um nýja stjórnarskrá Búlgaríu er meðal annars kveðið á um að þingmönnum verði fækkað um helming og sjálfstæði dómstóla aukið. Andstæðingar Borisovs segja hugmyndir um nýja stjórnarskrá vera tilraun forsætisráðherrans til að lengja valdatíð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×