Svetlana Tsíkhanosvkaja mun ávarpa Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna næstkomandi föstudag. Tsíkhanovskaja laut í lægra haldi fyrir Alexander Lúkasjenkó í forsetakosningum í Hvíta-Rússlandi fyrr í þessum mánuði. Kosningarnar eru afar umdeildar og telja andstæðingar forsetans að brögð hafi verið í tafli. Óháðum eftirlitsaðilum var ekki leyft að fylgjast með framkvæmd kosninganna.
Breska ríkisútvarpið hefur það eftir teymi í kring um Tsíkhanovskaju að hún muni ávarpa Öryggisráðið á föstudag, í gegn um fjarfundabúnað. Þá mun hún ávarpa Evrópuráðið í næstu viku.
Rússland er eitt þeirra ríkja sem á fast sæti í Öryggisráðinu. Hvíta-Rússland er nátengt Rússlandi, efnahagslega og í stjórnmálalegum skilningi. Lúkasjenkó hefur til að mynda lýst því yfir að hann hafi boðið Rússum að skerast í leikinn í Hvíta-Rússlandi og kveða niður mótmælaölduna sem risið hefur. Þá hyggst Lúkasjenkó funda með Vladímír Pútín Rússlandsforseta á næstu vikum.
Tsíkhanovskaja flúði til Litáens í kjölfar forsetakosninganna. Samkvæmt opinberum tölum hlaut hún rúm 10 prósent atkvæða, en Lúkasjenkó rúm 80. Niðurstöður kosninganna hafa orðið tilefni fjölmennustu mótmæla í sögu Hvíta-Rússlands og fjölda verkfalla og vinnustöðvana.
Mótmælendur segjast þá margir ekki ætla að una sér hvíldar fyrr en Lúkasjenkó fari úr embætti. Þeir ætli að fjölmenna á götur landsins og mótmæla í hverri viku uns forsetinn tekur pokann sinn.
Í gær, á afmælisdegi Lúkasjenkó, mótmæltu tugir þúsunda forsetanum í miðbæ Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands. Tugir mótmælenda voru handteknir þar og í öðrum borgum landsins. Minnst fjögur hafa látist og hundruð hafa slasast í átökum lögreglu og mótmælenda í kjölfar kosninganna.