Lögregla í Noregi hefur handtekið tvo vegna partís sem haldið var í byrgi í almenningsgarði í höfuðborginni Osló um helgina og varð til þess að á þriðja tug manna var fluttur á sjúkrahús vegna eitrunar.
NRK segir frá því að tvímenningarnir hafi verið handteknir fyrir að hafa staðið fyrir partíinu í byrginu án heimildar. Til greina komi að handtaka fleiri segir lögregla í yfirlýsingu.
Alls höfðu um tvö hundruð manns safnast saman í yfirgefnu byrgi í hverfinu St. Hanshaugen aðfaranótt sunnudagsins.
Varið var að halda upp á afmæli ungmenna, en veisluhöldunum lauk með því að 27 manns voru fluttir á sjúkrahús vegna gruns um að hafa orðið fyrir kolmónoxíðeitrun. Þrír eru enn inniliggjandi á gjörgæslu, en reiknað er með að flestir hinna sem lagðir voru inn muni útskrifast í dag.
Dísilvélum hafði verið komið fyrir í byrginu til að knýja tæki og tól til að spila tónlist, en sjúkralið kom að sjö manns meðvitundarlausum á staðnum.
Eina leiðin inn og út úr byrginu var gat, um einn metri í þvermál, en brotist hafði verið inn í byrgið sem vanalega er lokað og læst.