Innlent

Fimm innanlandssmit bætast við

Andri Eysteinsson skrifar
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Fimm einstaklingar greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Einstaklingarnir greindust á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og af þeim voru þrír í sóttkví. Á landamærunum greindust fjórir farþegar með kórónuveirusmit og beðið er eftir niðurstöðum mótefnamælingar í öllum tilfellum.

Þetta kemur fram í nýjustu tölfræði sem birt hefur verið á covid.is í dag.

Þá eru nú 114 í einangrun  en í gær voru þau 117. Enn liggur einn á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sýkingar en er ekki á gjörgæslu.

Alls eru 989 einstaklingar í sóttkví og hefur þeim fjölgað um 70 síðan í gær. Flesta þeirra má finna á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsfólk sýkla- og veirufræðideildarinnar tók í gær 556 sýni og við landamæraskimun voru tekin 1750 sýni. Íslensk erfðagreining tók 46.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur fór úr 18,3 í 19,6. Þá féll nýgengi landamærasmita úr 12,3 niður í 11,2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×