Fjölskyldumeðlimir íbúans á Hlíf voru skimaðir fyrir kórónuveirunni í gær sem og aðrir sem eru í sóttkví vegna smitsins. Ekkert nýtt smit greindist í gær en stefnt er að því að skima fleiri í bænum næstu daga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í morgun. Nítján íbúar Hlífar, sem eru íbúðir fyrir eldri borgara á Ísafirði, voru skikkaðir í sóttkví í gær vegna smitsins en ekki hefur enn tekist að rekja uppruna þess.
Í samtali við fréttastofu í gær sagði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, að verkferlar yrðu uppfærðir til að tryggja þjónustu samhliða því að viðhalda fullri smitgát. Aðgangur að Hlíf verður áfram takmarkaður.