Svetlana Tsikhanovskaya, stjórnarandstöðuleiðtogi í Hvíta-Rússlandi sem hefur flúið land, segist líta á sjálfa sig sem táknmynd breytinga og telur hlutverk sitt vera að tryggja að nýjar kosningar verði haldnar. Alexander Lúkasjenkó, forseti landsins, þurfi að hennar mati að stíga til hliðar fyrr eða síðar.
Svetlana flúði land og hélt til Litháen þar sem hún og börnin hennar tvö halda til vegna öryggisástæðna. Tsikhanovskaya sagði í samtali við fréttastofu Reuters að hún teldi það skyldu sína að gera allt sem í hennar valdi stæði til að styðja við mótmælendur í heimalandi hennar. Hún sagði þó að hún myndi ekki bjóða sig fram til forseta á ný.
„Á meðan á kosningabaráttunni stóð leit ég ekki á sjálfa mig sem stjórnmálamann en ég hvatti sjálfa mig áfram,“ sagði hún. „Ég sé ekki fyrir mér að vera í stjórnmálum. Ég er ekki stjórnmálamaður.“
Tugir þúsunda Hvít-Rússa hafa mótmælt síðastliðnar tvær vikur vegna niðurstöðu forsetakosninga sem fóru fram 9. ágúst síðastliðinn. Telja þeir að Lúkasjenkó hafi beitt kosningasvindli til að tryggja sér sigur. Krafa mótmælenda er sú að Lúkasjenkó stígi til hliðar og nýjar kosningar verði haldnar.
Tsikhanovskaya bauð sig fram til forseta eftir að eiginmaður hennar, sem ætlaði að bjóða sig fram, var fangelsaður. Hún segir að örlögin hafi rétt henni hlutverk sem hún mætti ekki svíkjast undan.
„Það eru örlög mín og verkefni, og ég hef engan rétt til að svíkjast undan því. Ég veit að ég er örugg hér en allt fólkið sem kaus mig í Hvíta-Rússlandi… þarf á mér að halda sem táknmynd. Þau þurfa á manneskjunni sem þau kusu að halda. Ég gæti ekki svikið fólkið mitt.“