Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), segist vona að kórónuveirufaraldrinum verði lokið innan tveggja ára.
Þetta sagði framkvæmdastjórinn í Genf í dag. Þar benti hann einnig á að baráttan við spænski veikina, sem reið yfir heimsbyggðina á árunum 1918-1920, hafi unnist á um tveggja ára skeiði. Hann sagði þá að tæknilegar framfarir síðan þá gætu reynst öflugt tól í að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins á skemmri tíma.
„En auðvitað, með meiri tengslum fólks aukast líkurnar á útbreiðslu veirunnar,“ sagði Ghebreyesus og vildi þannig meina að hnattvæðing og aukin tengsl fólks í ólíkum heimshlutum gætu gert það erfiðara að draga úr útbreiðslunni.
„Á sama tíma búum við yfir tækninni til að stöðva hana [veiruna] og við búum yfir kunnáttunni.“
Hann lagði þá mikla áherslu á einingu þjóða og samheldni heimsbyggðarinnar í baráttu sinni við faraldurinn.
Faraldurinn enn í sókn á heimsvísu
Þrátt fyrir fréttir af því að vinna við þróun bóluefnis við veirunni sé vel á veg komin er kórónuveiran í vexti víða um heim. Í dag tilkynnti Suður-Kórea um 324 nýgreinda á einum sólarhring en fleiri hafa ekki greinst með veiruna þar í landi síðan í mars.
Þá voru í dag slegin ný met hvað varðar fjölda nýgreindra kórónuveirusjúklinga í Póllandi, þar sem 903 greindust, og í Slóvakíu en þar greindust 123. Daglegur fjöldi nýgreindra hefur einnig tekið kipp upp á við í Frakklandi og á Spáni.
Í Líbanon er þá búið að herða samfélagslegar sóttvarnaaðgerðir en faraldurinn er í áður óséðum hæðum þar í landi. Íbúum landsins er til að mynda ekki leyft að vera úti að næturlagi, með það fyrir augum að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.
Fjöldi daglegra nýsmita í Líbanon hefur um það bil tvöfaldast eftir sprenginguna við höfn höfuðborgarinnar Beirút, þar sem 178 létu lífið, þann 4. ágúst síðastliðinn.
Um 300.000 manns misstu heimili sín í kjölfar sprengingarinnar og heilbrigðiskerfi landsins hefur verið undir gríðarlegu álagi síðan sprengingin varð.
Meira en 23 milljónir manna hafa greinst með veiruna á heimsvísu. Af þeim hafa rúmlega 800.000 látið lífið.