Fótbolti

16 dagar í Rúmeníuleikinn: Bæta landsleikjametið á Laugardalsvelli um 45 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið hefur spilað í mörgum mismunandi búningum á Laugardalsvellinum og þar á meðal klakabúningunum eins og sjá má hér.
Íslenska landsliðið hefur spilað í mörgum mismunandi búningum á Laugardalsvellinum og þar á meðal klakabúningunum eins og sjá má hér. Getty/Stuart Franklin
Fyrir umspilsleikinn á móti Rúmeníu 26. mars næstkomandi hefur A-landslið karla aldrei leikið á Laugardalsvelli í mars- eða aprílmánuði. Metið er síðan í leik á móti áhugamannalandsliði Englendinga fyrir rétt tæpri hálfri öld síðan.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Landsleikur á Laugardalsvelli hefur aldrei áður farið fram fyrir 10. maí þar til 26. mars næstkomandi þegar Rúmenarnir mæta í Dalinn.

Landsleikjametið á Laugardalsvelli er að verða hálfrar aldar gamalt.

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Englendinga á Laugardalsvellinum 10. maí 1970 þar sem Matthías Hallgrímsson tryggði íslenska liðinu jafntefli undir lok leiksins. Liðin höfðu spilað í London rúmum þremur mánuðum áður en þá vann England 1-0 sigur.

Ári síðar kom áhugamannalandslið Frakka til landsins og spilaði landsleik á Laugardalsvellinum 12. maí en þeim leik lauk með markalausu jafntefli. Sá leikur var í undankeppni Ólympíuleikanna í München 1972.

Tveir leikir hafa farið fram 19. maí og þar á meðal er leikur á móti Bólivíu í aðdraganda HM í Bandaríkjunum 994. Bólivíumenn voru þá að undirbúa sig fyrir úrslitakeppni HM þar sem þeir voru í riðli með Þýskalandi, Spáni og Suður-Kóreu.

Íslenska landsliðið vann leikinn 1-0 með marki frá Þorvaldi Örlygssyni rétt fyrir hálfleik en Bólivíumenn töpuðu einnig fyrir Þjóðverjum í opnunarleik HM 1994 sem fór fram 17. júní. JürgenKlinsmann skoraði þá eina mark leiksins.

Fljótasti fyrsti landsleikur ársins á Laugardalsvelli:

26. mars - 2020 - á móti Rúmeníu í umspili EM 2020

10. maí - 1970 - 1-1 jafntefli við England

12. maí - 1971 - 0-0 jafntefli við Frakkland

19. maí - 1989 - 0-2 tap fyrir Englandi

19. maí - 1994 - 1-0 sigur á Bólivíu

24. maí - 1988 - 0-1 tap fyrir Portúgal

25. maí - 1975 - 0-0 jafntefli við Frakkland

25. maí - 1986 - 1-2 tap fyrir Írlandi

26. maí - 1979 - tap fyrir Vestur-Þýskalandi

26. maí - 1987 - 2-2 jafntefli við Holland

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×