Seðlabanki Íslands hefur boðað til fundar á morgun þar sem peningastefnunefnd bankans hyggst kynna vaxtaákvörðun sína. Fundinum var flýtt en fyrirhugað var að Seðlabankinn myndi tilkynna ákvörðun sína í næstu viku.
Í síðustu viku sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að viðbúið væri að stýrivextir yrði lækkaðir vegna áhrifa kórónuveirunnar.
Seðlabankinn hyggst tilkynna ákvörðunina eftir klukkan átta í fyrramálið og verður hún rökstudd á fundinum sem verður haldinn klukkan tíu í húsakynnum bankans.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og nefndarmaður í peningastefnunefnd, munu þar gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar.
„Ferðalög í heiminum eru að dragast saman og það mun hafa áhrif á okkur. Líklega munum við sjá töluverð áhrif á öðrum ársfjórðungi. Minni ferðalög og það þýðir að einhverju leyti minn gjaldeyristekjur," sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri í samtali við fréttastofu síðasta miðvikudag.
Þá var Seðlabankinn búinn að kynna ráðherrum mögulegar aðgerðir til að bregðast við áhrifum veirunnar. Ásgeir sagði þjóðarbúið vel statt til að mæta áfallinu.
Hægt verður að fylgjast með fundinum hér á Vísi í fyrramálið.
Seðlabankinn flýtir vaxtaákvörðun sinni

Tengdar fréttir

Viðbúið að kórónuveiran leiði til vaxtalækkunar
Viðbúið er að stýrivextir verði lækkaðir vegna áhrifa kórónuveirunnar að sögn seðlabankastjóra. Seðlabankinn mun tryggja lausafé bankanna til að mæta fyrirtækjum sem gætu lent í erfiðleikum á meðan faraldurinn gengur yfir.

Ekki að fara á límingunum þó krónan sé að veikjast
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur Seðlabankann ekkert sérstaklega mótfallinn veikingu krónunnar.