Með lækkuninni eru meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, nú 2,25% og hafa aldrei verið lægri. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerir grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar á fundinum og svarar spurningum ásamt Rannveigu Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra.
Sjá einnig: Stýrivextir lækkaðir um hálft prósentustig
Auk þess að lækka stýrivexti taldi peningastefnunefndin rétt að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr 1% niður í 0%. Föst bindiskylda verður þó áfram 1%.
Þessar aðgerðir eru sagðar til þess fallnar að auka svigrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðarbúskapnum, ekki síst vegna áhrifa kórónuveirunnar. Ríkisstjórnin kynnti að sama skapi sjö aðgerðir í gær sem hún hyggst ráðast í til að blása auknu lífi í atvinnulífið vegna væntra þrenginga.
Beint streymi af fundinum úr seðlabankanum má nálgast í spilaranum hér að neðan. Fundurinn hefst sem fyrr segir klukkan 10.