Erlent

Dregur verulega úr mengun í Kína samhliða útbreiðslu kórónuveiru

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gríðarlega hefur dregið úr losun niturdíoxíðs í Kína. Rauðu og gulu svæðin sýna þéttleika losunarinnar.
Gríðarlega hefur dregið úr losun niturdíoxíðs í Kína. Rauðu og gulu svæðin sýna þéttleika losunarinnar. NASA/Joshua Stevens

Mikið hefur dregið úr mengun í Kína á síðustu dögum. Þetta sýna myndir frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA. Talið er að rekja megi samdráttinn til útbreiðslu kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19.

Myndir frá NASA sýna gríðarlegan samdrátt í losun niturdíoxíðs frá byrjun janúar og til seinni hluta febrúar.

Verksmiðjur og framleiðslustöðvar víða um Kína hafa nú dregið úr eða stöðvað starfsemi sína til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá hafa kínversk stjórnvöld lagt bann við ferðalögum á ákveðnum stöðum og milljónir manna hafa farið í sóttkví í landinu.

Vísindamenn hjá NASA segja samdrátt losunar niturdíoxíðs í fyrstu hafa sést nálægt Wuhan-borg, þar sem veiran greindist fyrst, en fljótlega hafi losunin dregist saman víðar um landið.

Áhrifa kórónuveirunnar gætir lang mest í Kína, en hún er talin eiga upptök þar. 80 þúsund manns hafa greinst með veiruna þar í landi og hátt í þrjú þúsund látist.

Hér að neðan má sjá samanburð á upphafi ársins 2019 annars vegar og upphafi 2020 hins vegar.

Samanburður á janúar og febrúar áranna 2019 og 2020.Joshua Stevens/NASA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×