Ísland mun enda í þriðja sæti í Eurovision í maí ef marka má samantekt vefsíðunnar Eurovision World þar sem stuðlar helstu veðbanka eru teknir saman.
Vefsíðan tekur saman stuðla hjá þrettán helstu veðbönkum heims og kemur þar fram að 6% líkur séu á því að Ísland vinni keppnina. Ísland flaug upp listann eftir að Daði og Gagnamagnið sigruðu Söngvakeppnina í gærkvöldi með lagi sínu Think about things en undanfarna daga hefur Ísland verið í 11. sæti á listanum.

Ísland hefur verið að sveiflast upp og niður listann frá því um miðjan janúar en hefur aldrei komist ofar en 8. sæti í þessum spám. Strax eftir sigur Daða í gærkvöldi rauk Ísland upp listann.
Í fyrsta sæti er Rúmenía með 11% líkur á sigri og Litháen í öðru sæti með sömu vinningslíkurnar. Tónlistarkonan Roxen mun flytja lag Rúmeníu en enn hefur ekki verið ákveðið hvaða lag verði sent út. Litháen sendir lagið On Fire með The Roop í Eurovision að þessu sinni.
Ítalíu er spáð fjórða sæti með lagið Fai rumore sem flutt verður af Diodato. Þar á eftir koma Búlgaría, Svíþjóð og Rússland en framlög þeirra til keppninnar hafa enn ekki verið ákveðin.