Fótbolti

24 dagar í Rúmeníuleikinn: Gylfi hefur ekki skorað síðan að hann lék síðast með Íslandi fyrir 106 dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í síðasta leik með íslenska landsliðinu en hefur ekki skorað í átján leikjum í röð með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í síðasta leik með íslenska landsliðinu en hefur ekki skorað í átján leikjum í röð með Everton. Getty/Matthew Ashton

Gylfi Þór Sigurðsson var nálægt því að enda langa bið eftir marki á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni en boltinn vildi ekki inn. Síðasta mark Gylfa kom í leik með íslenska landsliðinu 17. nóvember síðastliðinn.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Gylfi skoraði sigurmark íslenska landsliðsins í Moldóvu fyrir rúmum þremur mánuðum síðan en hefur ekki skorað síðan eða í heila 106 daga.

Gylfi var grátlega nálægt því að skora á móti ManchesterUnited í gær því hann átti skot í stöng úr aukaspyrnu og lét síðan David DeGea verja frá sér dauðafæri í uppbótatímanum.

Gylfi hefur spilað fjórtán leiki með Everton frá þessum Moldóvu leik, þrettán í deild og einn í bikar. Hann hefur ekki náð að skora í þeim þrátt fyrir að hafa verið inn á vellinum í 1207 mínútur.

Síðasta mark Gylfa með Everton kom í leik á móti West Ham 19. október eða fyrir 135 dögum síðan. Gylfi kom þá inn á sem varamaður og skoraði í uppbótatíma.

Gylfi hefur nú spilað 1339 mínútur í Everton búningnum án þess að skora en þetta eru orðnir átján Everton leikir í röð án marks.

Auðvitað færði CarloAncelotti Gylfa aftar á völlinn þegar hann tók við en það breytir ekki því að þetta er orðin mjög löng bið eftir marki.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×