Í nýjasta Kompás á Vísi lýsir kona með þroskahömlun reynslu sinni af vændi en hennar saga er aðeins ein af nokkrum. Konan segist nokkrum sinnum þurft að leita á Neyðarmóttökuna vegna ofbeldis sem hún verður fyrir í vændinu. Í þættinum lýsir hún því hvernig menn hlusta ekki á hana, virða ekki mörk hennar og beita hana ofbeldi eða þvingunum.
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri á Neyðarmóttökunni, segir um það bil tíu konur með þroskahömlun leita til neyðarmóttökunnar á ári hverju. Þau sjái ekki mörg vændismál en stundum vakni óstaðfestur grunur um slíkt. Algengt sé að mál komi upp þar sem karlmaðurinn nálgist einstaklinga með þroskahömlun á fölskum forsendum.

„Þetta eru til dæmis einstaklingar sem kynnast einhverjum á netinu og telja jafnvel að þetta sé einhver sem vill þeim vel og verði jafnvel kærasti. En þegar upp er staðið er það ekki þannig,“ segir Hrönn.
Þegar konan hitti manninn sé hún beitt þvingunum til að gera eitthvað sem hún vilji ekki.
„Við höfum séð tilfelli þau telja að þau séu að fara að hittast og horfa saman á video - og eru jafnvel búin að tala saman heillengi á netinu en þegar upp er staðið vill hinn aðilinn eitthvað annað, kynlíf, sem snýst síðan upp í ofbeldi.“