Fótbolti

Viðar Örn laus allra mála í Tyrklandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Örn í leik með íslenska landsliðinu
Viðar Örn í leik með íslenska landsliðinu vísir/getty

Landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson verður ekki áfram í herbúðum tyrkneska félagsins Yeni Malatyaspor. Þetta staðfesti Ólafur Garðarson, umboðsmaður Viðars, í samtali við íþróttadeild Mbl.is.

Viðar Örn var upprunalega lánaður til Yeni í janúar á þessu ári frá Rostov í Rússlandi. Lánið átti að vera til tveggja ára sem og tyrkneska félagið var með forkaupsrétt á leikmanninum.

Gengi liðsins eftir að hinn 30 ára gamli landsliðsframherji samdi við það var þó ekki upp á marga og fiska og fór það svo að félagið féll um deild og leikur í tyrknesku B-deildinni á næsta ári.

Liðið er því í fjárhagsvandræðum og hefur fengið að segja upp lánsamning Viðars sem er nú laus allra mála og má finna sér nýtt lið en hann stefnir ekki á að vera áfram í Rússlandi.

Alls lék Viðar 15 leiki fyrir Yeni, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

„Þessi mál voru leyst í góðu og að frumkvæði Viðars. Ljóst var að vegna kórónuveirunnar hefði félagið ekki getað staðið við samninginn, þar sem það er í miklum erfiðleikum. Viðar er nú laus allra mála og getur fundið sér nýtt félag,“ sagði Ólafur við Víði Sigurðsson hjá Morgunblaðinu.

Viðar Örn hefur verið á miklu flakki undanfarin ár en ávallt skorað mörk. Hann hefur raðað inn fyrir lið eins og Malmö, Hammarby og Vålerenga á Norðurlöndunum og aldrei að vita nema hann færi sig nær Íslandi á næstu leiktíð.

Alls hefur hann leikið 26 landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×