Heilbrigðisyfirvöld á Ítalíu tilkynntu í gær að sautján manns hafi greinst með COVID19-kórónaveiruna í norðurhluta landsins. Þá var greint frá því að einn hafi látist af völdum veirunnar.
Reuters greinir frá því að fimmtán manns hafi greinst með veiruna í héraðinu Lombardy og tveir í Veneto. Fimm hinna smituðu starfa innan heilbrigðisgeirans.
Í yfirlýsingu frá ítölskum heilbrigðisvöldum sem send var út í gærkvöldi kom fram að fyrsta staðfesta dauðsfallið í landinu sem rekja mætti til veirunnar hafi komið upp í gær. Var um að ræða 78 ára gamlan mann í borginni Padova sem er að finna í Veneto-héraði.
Ekki hefur fengist staðfest hvort að allir hinir smituðu tengist á einhvern hátt, en þó er vitað til þess að einhver þeirra þekkjast.
Enginn heimsótt Kína
Enginn hinna smituðu á Ítalíu hafa heimsótt Kína, en vitað er til þess að sá sem greindist fyrst hafði nýverið hitt manneskju sem nýlega hafði verið í Kína. Sá hefur hins vegar ekki greinst með veiruna, en heilbrigðisstarfsmenn kanna nú hvort að hann hafi verið smitberi engu að síður. Veiran greindist fyrst í Hubei-héraði í Kína og þar eru jafnframt langflestir þeirra sem smitast hafa af veirunni.
Áður hafa þrjú tilfelli COVID19-veiru greinst á Ítalíu, en þá var um að ræða kínverska ferðamenn sem heimsóttu Róm og svo ítölsk kona sem hafði verið í borginni Wuhan í Hubei.
2.236 látnir
Mörg hundruð manns hafa verið í samskiptum við þá sem nú þegar hafa greinst á Ítalíu og hafa yfirvöld þar í landi ákveðið að loka skólum, veitingastöðum og banna fjöldasamkomur í tíu borgum og bæjum til að draga úr líkum á frekari útbreiðslu, þar með talið í bænum Codogno þar sem fyrsta tilfellið kom upp.
Alls hafa 75.400 manns greinst með veiruna í Kína og hafa 2.236 látið þar lífið, langflestir í Hubei-héraði.