Erlent

Beitti tára­gasi og gúmmí­kúlum gegn mót­mælendum á Les­bos

Atli Ísleifsson skrifar
Tugir særðust í átökunum í gærkvöldi sem nú hafa staðið í tvo daga.
Tugir særðust í átökunum í gærkvöldi sem nú hafa staðið í tvo daga. AP

Lögreglan á grísku eyjunni Lesbos beitti táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum í gærkvöldi en fólkið er ósátt fyrir fyrirætlanir stjórnvalda um að reisa nýjar búðir fyrir flóttamenn á eyjunni. Tugir særðust í átökunum í gærkvöldi sem nú hafa staðið í tvo daga.

Forsætisráðherra Grikkja, Kyriakos Mitsotakis hvetur fólk til að sýna stillingu en einnig var efnt til mótmælafunda á eyjunum Chios og Samos í gær.

Stjórnvöld hafa lofað að reisa nýjar búðir á eyjunum Lesbos, Samos, Chios, Leos og Kos en búðirnar sem þegar hafa verið reistar eru yfirfullar. Eyjarnar fimm liggja undan ströndum Tyrklands en hundruð þúsunda flóttamanna hafa freistað þess að flýja frá átakasvæðum og yfir til Evrópu þessa leið síðustu árin.

Um 19 þúsund manns eru nú í flóttamannabúðunum á Lesbos sem kallaðar eru Moria, en búðirnar voru upphaflega hannaðar til að taka á móti tæplega þrjú þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×