Innlent

Um tuttugu manns í sóttkví hér á landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarnadeildar RLS, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Margrét Kristín Pálsdóttir, settur vararíkislögreglustjóri og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu á fundinum í dag.
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarnadeildar RLS, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Margrét Kristín Pálsdóttir, settur vararíkislögreglustjóri og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu á fundinum í dag. vísir/egill

Um tuttugu manns eru í fjórtán daga sóttkví hér á landi vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á blaðamannafundi sem haldinn var síðdegis í dag til að fara yfir stöðu mála vegna veirunnar.

Greint hafði verið frá því fyrr í vikunni að tveir einstaklingar væru í sóttkví á Egilsstöðum eftir að hafa komið heim úr skíðaferð til Cortina á Ítalíu. Cortina er í Venotó-héraði sem er eitt fjögurra héraða á Norður-Ítalíu þar sem talin er vera mikil smitáhætta.

Auk þeirra tveggja á Egilsstöðum voru tólf Íslendingar til viðbótar í ferðinni til Cortina. Sóttvarnalæknir setti sig í samband við þá og beindi þeim tilmælum til þeirra að fara í sóttkví.

Þá eru einhverjir til viðbótar við þessa fjórtán í sóttkví að sögn Þórólfs og talan um tuttugu manns. Þá séu yfirvöld komin með betra kerfi til þess að halda miðlægt utan um það hversu margir eru í sóttkví á hverjum tíma.

Sjá einnig: Spurt og svarað um kórónuveiruna



Áður hafði verið sagt frá því í fjölmiðlum að annars vegar fjölskylda sem kom frá Peking hafi farið í fjórtán daga sóttkví og hins vegar fjölskylda sem kom frá Wuhan í Kína þar sem veiran á uppruna sinn, þótt staðfest hafi verið að ekkert þeirra væri smitað.

Um svokallaða heimasóttkví er að ræða og er úrræðið frekar íþyngjandi miðað við þær leiðbeiningar sem sóttvarnalæknir hefur gefið út.

Þannig á einstaklingur í sóttkví að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga. Hann má ekki fara út af heimilinu nema brýna nauðsyn beri til og hann má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.

Þá má einstaklingur í sóttkví ekki fara á mannamót eða út í búð en hann má fara í bíltúr á sínum einkabíl. Hann má þó ekki eiga samskipti við aðra í návígi í bíltúrnum, svo sem við bílalúgur veitingastaða.


Tengdar fréttir

Kórónu­veiran komin til Dan­merkur

Maðurinn sem greindist með veiruna er starfsmaður dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og var nýkominn heim úr skíðaferð á Norður-Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×