Fótbolti

Hræringar í Árbænum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ari í leik með Fylki gegn FH.
Ari í leik með Fylki gegn FH. Vísir

Það er mikið um að vera hjá knattspyrnudeild Fylkis þessa dagana en Ari Leifsson er á leið í atvinnumennsku og þá staðfesti félagið komu Djair Parfitt-William í dag em sá kemur frá Slóveníu eftir að hafa verið alinn upp á Englandi en er með vegabréf frá Bermúda.

Þetta kom fram á mbl.is fyrr í dag.

Ari Leifsson hefur verið fastamaður í vörn Fylkis undanfarin tvö sumur en hann er uppalinn Árbæingur. Þessi ungi og efnilegi leikmaður heldur nú í víking til Noregs en Árbæingar hafa samþykkt tilboð norska úrvalsdeildarfélagsins Strømsgodset.

Ef Ari samþykkir samning félagsins ætti hann að verða leikmaður þess á næstu dögum og þar með ljóst að hann mun ekki leika með Fylki í Pepsi Max deildinni næsta sumar. Alls hefur Ari, sem er fæddur árið 1998, leikið 46 leiki í efstu deild fyrir Fylki ásamt því að hafa leikið 14 leiki fyrir U21 landslið Íslands og skorað í þeim eitt mark. 

Strømsgodset endaði í 11. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 32 stig.

Þá staðfesti mbl.is einnig komu Djair Parfitt-William til Fylkis en hann fær leikheimild á morgun og missir því af leik Fylkis og Víkings Reykjavíkur sem er í þann mund að ljúka. Parfitt-Williams lék síðast með Rudar Velenje í Slóveníu en þessi 23 ára gamli sóknarmaður var í röðum West Ham United á sínum yngri árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×