Innlent

Þrjú lögregluembætti vinna að því að greina ferðir mannsins

Sylvía Hall skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, brýnir fyrir fólki að leita til fjölmiðla fyrir upplýsingar um þróun mála varðandi kórónuveiruna COVID-19. Fyrsta tilfellið var staðfest hér á landi í dag þegar sýni úr karlmanni á fimmtudagsaldri reyndist jákvætt.

Maðurinn hafði verið í skíðaferð með fjölskyldu sinni á Ítalíu og veiktist nokkrum dögum eftir heimkomu. Víðir segir lögregluna hafa fengið góðar upplýsingar frá fjölskyldunni og tengdum aðilum varðandi ferðir þeirra frá heimkomu. Nú sé unnið að því að greina ferðir mannsins.

„Það er átta manna teymi, þrjú lögregluembætti: Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn á Suðurnesjum undir stjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ásamt starfsmönnum sóttvarnarlæknis og Landspítalans þar sem við erum að ná að greina allt sem hefur verið gert,“ segir Víðir í samtali í samtali við fréttastofu.

Hann segir mikilvægt að fólk leiti upplýsinga á viðeigandi stöðum og vísar meðal annars á vef landlæknis. Þá eigi fólk að fylgjast með fjölmiðlum og treysta þeim í stað þess að leita upplýsinga annars staðar.

„Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að við erum ekki með nein leyndarmál. Við setjum allt upp á borðið, fjölmiðlar hafa aðgang að öllum sem við erum að gera. Þið getið rýnt það eins og þið viljið og við treystum því að fólk leiti til þessara fjölmiðla og sé ekki að leita sér að einhverjum vefsíðum þar sem er verið að fara með falskar fréttir eða elta slíkt á samfélagsmiðlum,“ segir Víðir.

„Leitið þið í fjölmiðlana okkar. Þar fáið þið réttar upplýsingar því við segjum þeim allt sem við erum að gera.“

Viðtalið við Víði má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×