Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir luku sínum þriðja hring á NSW Open í Ástralíu í nótt. Mótið er partur af Evrópumótaröð kvenna.
Bæði Valdís og Guðrún komust í gegnum niðurskurðinn sem var eftir tvo hringi. Valdís lék á 72 höggum, eða pari vallarins, í nótt og er samanlagt á tveimur höggum yfir pari í 30. - 36. sætinu.
Guðrún Brá lék á níu höggum yfir pari, 81 höggi. Hún er samtals 14 höggum yfir pari og situr í 65. sæti, sem er jafnframt neðsta sætið af þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn. Alls tóku 156 kylfingar þátt í mótinu.
Manon De Roey frá Belgíu er efst fyrir lokahringinn, hún er á 15 höggum undir pari eftir fyrstu þrjá hringina og er með fimm högga forystu á næsta keppanda.
Lokahringurinn verður í beinni á Stöð 2 Golf frá kl. 23:35 í kvöld.