Sænska söngkonan Molly Sandén hefur birt myndband þar sem hlýða má á órafmagnaða útgáfu hennar af laginu Húsavík úr Eurovision-myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.
Sandén söng rödd persónu kanadísku leikkonunnar Rachel McAdams í myndinni, en á móti henni söng leikarinn Will Ferrell.
Myndbandið nú er tekið upp á stöndinni á eyjunni Öland, austur af sænsku Smálöndunum. Með Sandén má sjá píanóleikarann Pontus Persson. Lagið Húsavík hefur notið mikilla vinsælda á streymisveitunum, bæði hérlendis og erlendis.
Hin 27 ára Sandén hefur þrátt fyrir ungan aldur lengi verið áberandi í sænsku tónlistarlífi. Var hún fulltrúi Svía í Junior Eurovision Song Contest árið 2006 og tók þátt í Melodifestivalen, undankeppni Svía í Eurovision, árin 2009, 2012 og 2016.
Myndin var tekin að stórum hluta upp hér á landi og fóru tökur meðal annars fram á Húsavík í október á síðasta ári. Í myndinni leika þau Ferrell og McAdams Íslendingana Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir sem keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision.
Sjá má myndbandið að neðan.