Erlent

Stjórnar­flokkurinn herðir tökin í Aserbaídsjan

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 58 ára Ilham Aliyev hefur stýrt landinu frá 2003.
Hinn 58 ára Ilham Aliyev hefur stýrt landinu frá 2003. AP

Stjórnarflokkurinn í Aserbaídsjan, flokkur Ilham Aliyev forseta, vann sigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu á sunnudag. Stjórnarandstæðingar og alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa sett út á framkvæmd kosninganna.

Flokkur Aliyev forseta vann meirihluta þingsæta í kosningunum samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn landsins. Gera þær ráð fyrir að Nýtt Aserbaídsjan, flokkur Aliyev, hafi hlotið 65 þingsæti af þeim 125 sem í boði eru á aserska þinginu. Talsmenn flokksins hafa nú þegar lýst yfir sigri.

Eftirlitsaðilar á vegum ÖSE segja að „kjósendum hafi ekki verið boðið upp á merkingarbært val“ í kosningunum, auk þess að brot hafi verið framin við talningu atkvæða. Arif Gadjily, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að nokkuð hafi verið um að fyrirfram merktum kjörseðlum hafi verið troðið í kjörkassa og að margir hafi kosið oftar en einu sinni.

Frá kjörfundi í Aserbaídsjan í gær.AP

Leysti upp þingið

Aliyev leysti upp þingið fyrir tveimur mánuðum, leysti forsætisráðherrann og fleiri háttsetta embættismenn frá störfum, auk þess að flýta kosningum. Stjórnarandstæðingar segja að með kosningunum geti forsetinn komið valdamiklum en óvinsælum mönnum frá í nafni umbóta, á sama tíma og hann viðheldur völdum síns flokks.

Hinn 58 ára Aliyev hefur stýrt landinu frá 2003, en hann tók þá við embættinu af föður sínum. Eiginkona hans, Mehriban Aliyeva, gegnir embætti varaforseta landsins.

Alls búa um níu milljónir manna í Aserbaídsjan. Landið er mjög ríkt af olíu og mjög háð hráefnaútflutningi. Lækkun olíuverðs hefur haft mikil áhrif á efnahag landsins að undanförnu og hefur gjaldmiðill landsins fallið í virði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×