Erlent

Til­kynnt um 242 ný dauðs­föll á einum sólar­hring í Hubei

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa nú 1.310 manns látið lífið af völdum Covid19-veirunnar í Hubei, héraðinu þar sem veiran greindist fyrst.
Alls hafa nú 1.310 manns látið lífið af völdum Covid19-veirunnar í Hubei, héraðinu þar sem veiran greindist fyrst. Getty

Tilkynnt hefur verið um 242 ný dauðsföll sem rekja má til Covid19-veirunnar síðasta sólarhringinn í kínverska héraðinu Hubei. Er þetta sá sólarhringur þar sem tilkynnt hefur verið um flest dauðsföll frá því að veiran var fyrst greind.

Um er að ræða rúmlega tvöföldun, en fyrri metfjöldi var 103. Reuters segir frá því að skýringin á þessari miklu aukningu sé að heilbrigðisstarfsmenn í Kína séu byrjaðir að notast við nýja aðferð við að greina veiruna.

Alls hafa nú 1.310 manns látið lífið af völdum Covid19-veirunnar í Hubei, héraðinu þar sem veiran greindist fyrst.

Auk fjölgunar dauðsfalla hafa tilfellum um smit fjölgað, en í morgun greindu kínversk heilbrigðisyfirvöld frá að 14.480 manns til viðbótar hafi greinst með veiruna. Staðfest er að um 60 þúsund manns hafi smitast í Kína, langflestir í Hubei, eða um 48 þúsund.

Báru saman bækur sínar

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), segir að ekki sé nein áætlun um hvenær verði hægt að stöðva útbreiðslu veirunnar. Um 400 vísindamenn komu saman í Genf í gær til að bera saman bækur sínar um bestu aðferðirnar til að þróa mótefni gegn veirunni.

Tilkynnt var í dag að kínversk stjórnvöld hafi látið reka héraðsstjórann í Hubei, sem hefur sætt nokkurri gagnrýni hvernig héraðsstjórn hefur brugðist var við útbreiðslu veirunnar. Ying Yong, borgarstjóri Sjanghæ, verður nýr héraðsstjóri í Hubei.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×