Lífið

Tekjur úr síma­kosningu ó­missandi fyrir RÚV

Sylvía Hall skrifar
Framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar segir fátt benda til þess að fólk setji það fyrir sig að greiða 139 krónur fyrir atkvæðið.
Framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar segir fátt benda til þess að fólk setji það fyrir sig að greiða 139 krónur fyrir atkvæðið. Mynd/RÚV

Framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar segir kosningakerfið á Íslandi vera í skoðun og RÚV hafi skoðað möguleika á breytingum á kosningafyrirkomulaginu. Í undankeppni Norðmanna er boðið upp á netkosningu en að sögn framkvæmdastjórnarinnar eru tekjurnar úr símakosningu „ómissandi fyrir RÚV“.

Þetta kemur fram í svari framkvæmdastjórnarinnar á vef mbl.is. Þar segir jafnframt að nýtt Eurovision-app verði að líklega í boði í kosningu Eurovision í vor og mögulegt að það verði einnig hér á landi á næsta ári.

Það sé þó mikilvægast að kosningin sé vel skipulögð og það séu takmörk á atkvæðafjölda hvers og eins. Þannig sé kosningin líkust alvöru lýðræðislegum kosningum en opnar netkosningar geri það erfiðara í framkvæmd.

„Þær þjóðir sem hafa prófað slíkt í sínum undankeppnum hafa flestar fallið frá því. EBU leyfir ekki opnar netkosningar í Eurovision, þar er sams konar símakosning og í Söngvakeppninni,“ segir í svarinu til blaðamanns mbl.is.

Að sögn framkvæmdastjórnarinnar þyrfti nýr tekjustofn að koma til ef fallið yrði frá núverandi fyrirkomulagi. Hvert atkvæði sem greitt er í Söngvakeppninni kostar 139 krónur og fær RÚV þannig tekjur. Þátttaka beri það með sér að ekki sé mikill munur á kosningaþátttöku milli aldurshópa og því fátt sem bendi til þess að fólk setji það fyrir sig að greiða 139 krónur fyrir atkvæðið.


Tengdar fréttir

Dimma og Ísold og Helga áfram í Söngvakeppninni

Lögin Almyrkvi, með Dimmu, og Klukkan tifar, Með Ísold og Helgu, komust áfram á fyrri undanúrslitakvöldi Söngvakeppni Ríkisútvarpsins þar sem valið er hvaða tónlistarmenn munu keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision.

Listi yfir keppendur í Söngvakeppninni birtur

Svo virðist sem listi yfir væntanlega þátttakendur í Söngvakeppni sjónvarpsins hafi verið birtur á Spotify en opinberun listans er ekki á dagskrá RÚV fyrr en í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.