Innlent

Enn ein veðurviðvörunin á Vestfjörðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Gula viðvörunin fyrir Vestfirði tekur gildi klukkan 17:00 í dag og gildir til klukkan 10:00 á mánudagsmorgun.
Gula viðvörunin fyrir Vestfirði tekur gildi klukkan 17:00 í dag og gildir til klukkan 10:00 á mánudagsmorgun. Veðurstofa Íslands

Varað er við hvassviðri eða stormi á Vestfjörðum þar sem gul veðurviðvörun tekur gildi síðdegis. Þar má búast við talsverðri snjókomu með skafrenningi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Þá er enn varað við hættu á sjávarflóðum um landið sunnan- og austanvert framan af degi.

Tvær öflugar lægðir hafa gengið yfir landið undanfarna daga en veðurviðvörunum hefur nú verið aflétt alls staðar nema á Vestfjörðum. Þar er gert ráð fyrir vindhraða á bilinu 15-23 metrum á sekúndu samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Gula veðurviðvörunin tekur gildi klukkan 17:00 og verður í gildi þar til klukkan 10:00 á mánudagsmorgun.

Almennt er gert ráð fyrir norðlægri átt á landinu, 5-13 metrum á sekúndu, skýjuðu með köflum og úrkomulitlu. Ganga á í norðaustan 13-20 metra á sekúndu norðanlands með snjókomu seinnipartinn.

Líkt og í gær er talin aukin hætta á sjávarflóðum um landið sunnan- og austanvert vegna lágs loftþrýstings, mikils áhlaðanda og brims.

Í yfirliti Vegagerðarinnar kemur fram að vegir séu víða greiðfærir um sunnanvert landið en meiri vetrarfærð sé um landið norðanvert. Vegurinn um Víkurskarð var lokaður í morgun.

Á morgun er spáð norðan og norðaustan 5-13 metrum á sekúndu og snjókomu með köflum en 15-23 metrum á sekúndu norðvestantil. Úrkomuminna verður síðdegis og dregur úr vindi norðvestanlands. Hiti verður nálægt frostmarki en kaldara inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×