Erlent

Kínverjar segja að nýjum kórónuveirusmitum fari fækkandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn í hlífðarklæðnaði búa sig undir að sótthreinsa í íbúðarhverfi í Beijing vegna kórónuveirunnar.
Starfsmenn í hlífðarklæðnaði búa sig undir að sótthreinsa í íbúðarhverfi í Beijing vegna kórónuveirunnar. Vísir/EPA

Tilkynningum um ný kórónuveirusmit hefur nú fækkað í þrjá daga í röð ef marka má opinberar tölur kínverskra yfirvalda. Þau tilkynntu um rúmlega tvö þúsund ný smit og 142 dauðsföll af völdum veirunnar í dag.

Tölur um ný tilfelli kórónuveirunnar tóku kipp í síðustu viku eftir að kínversk stjórnvöld breyttu því hvernig þau voru talin. Síðan þá hefur nýjum smitum farið fækkandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Alls hafa nú rúmlega 68.000 manns smitast af veirunni í Kína og 1.665 manns látist. Utan Kína hafa um fimmhundruð tilfelli greinst í nærri því þrjátíu löndum. Fjórir hafa látist í Frakklandi, Hong Kong, á Filippseyjum og í Japan.

Mi Feng, talsmaður heilbrigðisnefndar Kína, fullyrti í dag að aðgerðir stjórnvalda í Beijing til að ná tökum á veirunni bæru nú árangur. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstöðumaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), lofaði viðbrögð kínverskra stjórnvalda í gær.

„Kína hefur keypt heiminum tíma. Við vitum ekki hversu langan tíma. Það blæs okkur von í brjóst að við höfum ekki séð mikið um smit á milli manna utan Kína,“ sagði hann.

Kínversk stjórnvöld hafa engu að síður verið gagnrýnd fyrir að reyna að gera minna úr veirunni en efni stóðu til þegar hún kom fyrst upp í borginni Wuhan í desember. Lögreglunni var þannig sigað á lækna sem reyndu að vara hver aðra við veirunni.


Tengdar fréttir

Bandaríkjamenn munu losna úr hinni fljótandi prísund

Yfirvöld í Bandaríkunum hyggjast senda eftir þeim Bandaríkjamönnum sem fastir hafa verið í sóttkví um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Prince í Yokohama Japan í rúma viku og vilja komast heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×