Erlent

Fjór­tán börn meðal þeirra sem voru drepin í árás á þorp í Kamerún

Eiður Þór Árnason skrifar
Enn hefur ekki verið borin kennsl á hópinn.
Enn hefur ekki verið borin kennsl á hópinn. Here Maps

Minnst 22, þar af 14 börn voru drepin í vopnaðri árás á þorp í Kamerún á föstudag, að sögn Sameinuðu þjóðanna.

Árásin átti sér stað í þorpinu Ntumbo í norðvesturhluta landsins og greina staðarmiðlar frá því að fólk hafi þar meðal annars verið brennt lifandi.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni en stjórnarandstöðuflokkur hefur sakað kamerúnska herinn um verknaðinn. Þarlend stjórnvöld, sem hafa barist gegn aðskilnaðarsinnum á svæðinu í þrjú ár, neita því að hafa átt þátt í árásinni.

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna greindi fréttastofu breska ríkisútvarpsins frá því að þunguð kona hafi verið meðal hinna látnu. Íbúar eru sagðir vera mjög óttaslegnir eftir hörmungarnar en árásarmennirnir hafa hótað frekari aðgerðum á svæðinu. Talið er að minnst sex hundruð þorpsbúar hafi nú flúið svæðið.

Rignyu Solange, íbúi í þorpinu, sagði í samtali við CNN að níu fjölskyldumeðlimir hennar hafi látið lífið á föstudag þegar öryggissveitir í leit að aðskilnaðarsinnum hafi kveikt í fjölda húsa á svæðinu.

The Movement for the Rebirth of Cameroon, einn helsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, segir „einræðisstjórnina“ og æðsta yfirmann kamerúnskra öryggissveita bera ábyrgð á verknaðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×