Erlent

Yfir 17 þúsund tilfelli Wuhan-veiru staðfest

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vinnustöðvun heilbrigðisstarfsfólks í Hong Kong.
Frá vinnustöðvun heilbrigðisstarfsfólks í Hong Kong. Vísir/EPA

Staðfest tilfelli Wuhan-kórónaveirusmits eru nú orðin alls 17.205. Þá hefur 361 látist af völdum veirunnar, samkvæmt nýjum tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína. Heilbrigðisstarfsfólk í Hong Kong er nú í verkfalli og krefst þess að landamærum sjálfsstjórnarhéraðsins að meginlandi Kína verði lokað.

Grunur er um yfir 21 þúsund tilfelli veirunnar og þá eru um 150 þúsund manns undir eftirliti lækna. 475 hafa náð sér af veirunni. Líkt og komið hefur fram hafa nú fleiri smitast af Wuhan-veirunni en Sars-veirunni árin 2002-2003. Dánarhlutfall í tilviki þeirrar fyrrnefndu er þó lægra, sem þykir benda til þess að hún sé ekki jafnbanvæn og Sars.

Útbreiðsla veirunnar hefur haft víðtæk áhrif á kínverskt samfélag. Markaðir í Kína tóku til að mynda dýfu er þeir opnuðu í morgun í fyrsta sinn síðan 23. janúar, þegar aðeins 17 höfðu látist af veirunni.

Þá hafa hundruð heilbrigðisstarfsmanna í Hong Kong nú lagt niður störf vegna veirunnar. Verkfallið nær til þeirra sem ekki teljast „ómissandi“ innan geirans. Þeir krefjast þess að landamærum Hong Kong og meginlands Kína verði lokað til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þegar hafa allar lestar- og ferjusamgöngur milli Kína og sjálfstjórnarhéraðsins verið stöðvaðar til að stemma stigu við faraldrinum.

Læknar og hjúkrunarfræðingar mæta til vinnu í Hong Kong í dag en munu leggja niður störf á morgun, verði stjórnvöld ekki að kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Alls hafa 15 tilfelli Wuhan-veirunnar greinst í Hong Kong.

Kínversk yfirvöld hafa gripið til víðtækra ráðstafana vegna veirunnar. Ráðist var í byggingu neyðarsjúkrahúsa í Wuhan og það fyrra, sem reis á aðeins átta dögum, var opnað í dag. Gert er ráð fyrir að hinn spítalinn verði tekinn í notkun á miðvikudag.

Þá var fyrsta andlát af völdum veirunnar utan Kína staðfest í gær á Filippseyjum. Hinn látni var karlmaður á fimmtugsaldri.

Mörg ríki heimsins hafa auk þess gert ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Rússland hefur þannig lokað landamærum sínum að Kína og Ástralía og Bandaríkin hafa bannað ferðalög erlendra ríkisborgara frá Kína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×